Isavia í Keflavík með þrjú skref

Flugstöð Leifs Eiríkssonar, Þjónustuhús og Flugturn í Keflavík fengu í gær viðurkenningu fyrir að hafa lokið við þriðja Græna skrefið. Í Keflavík starfar öflug umhverfisdeild sem farið hefur fyrir innleiðingu Grænu skrefanna í starfseminni. Mikil áhersla hefur verið lögð á fræðslu til starfsmanna og rekstaraðila og að virkja þá til góðra verka. Sorpmálin hafa verið tekin föstum tökum og geta starfsmenn, rekstraraðilar og gestir flugvallarins flokkað sitt sorp. Starfsmenn umhverfisdeildar hafa lagt sig fram við að gera upplýsingar um flokkun eins skýrar og hægt er bæði með því að nota myndmál og þau tungumál sem töluð eru á vinnustaðnum. Hér má til að mynda sjá leiðbeiningar um flokkun eftir rýmum og ítarlegri leiðbeiningar og myndbönd hér. Í mötuneyti starfsmanna hafa diskar verið minnkaðir í viðleitni til að sporna við matarsóun og í nóvember síðastliðnum var matarsóun í mötuneyti mæld yfir þriggja vikna tímabil til að vekja starfsmenn til vitundar um umfang sóunar. Fróðlegt er að lesa umhverfiskaflann í ársskýrslu Isavia frá árinu 2018 en þar má kynna sér hvað fyrirtækið hefur verið að gera í umhverfis- og loftslagsmálum, hljóðvist og endurvinnslu. Við óskum Isavia á Keflavíkurflugvelli innilega til hamingju með árangurinn og hlökkum til að vinna áfram með þeim í Grænu skrefunum!

82594243 2511645255742617 3123361459589873664 n

Hér taka Valur Klemensson og Ásdís Ólafsdóttir, starfsmenn umhverfisdeildar Isavia á Keflavíkurflugvelli, við viðurkenningu fyrir þriðja skrefið frá Birgittu Steingrímsdóttur, starfsmanni Umhverfisstofnunar.

82833422 2317982454968961 4430291038208262144 n

Starfsmenn gæddu sér á glæsilegri Grænskrefaköku í tilefni dagsins.